Velkomin/n á Námsefnið Einelti

Kæri félagi,       

Með þessu námskeiði vonum við að þú fáir innsýn í hvort einelti viðgangist á vinnustaðnum þínum og hvað þú getur gert til að sporna við því. Þetta námskeið er sérstaklega hugsað fyrir þá sem verða fyrir aðkasti, ofbeldi og einelti í vinnunni en auðvitað er það öðrum opið og vonandi geta flestir lært hvað hægt er að gera.

Markmiðið með þessu námskeiði er að styrkja þá sem telja sig verða fyrir einelti þannig að þeir geti metið hvort þeir eru þolendur og þá hvernig verið er að beita þá ofbeldi. Einnig eiga þeir að geta fengið hugmyndir um hvernig taka eigi á eineltinu og aðstoða stjórnendur, trúnaðarmenn og aðra sem þurfa að þekkja til þessara mála á vinnustað, að átta sig á helstu birtingarmyndum eineltis.

Einelti á íslenskum vinnustöðum hefur trúlega alltaf þrifist þótt sjaldan hafi verið talað um það. Það er ekki langt síðan farið var að tala opinberlega um líðan starfsfólks en sú umræða hefur aukist síðustu árin og er það af hinu góða. Ef ekki er fjallað um einelti og skaðleg áhrif þess á einstaklinga og fyrirtæki þá er ekki hægt að taka á vandamálinu. Þess vegna er það fagnaðarefni að fólk sé síður hrætt við að tala opinskátt um það þegar níðst er á því andlega eða líkamlega.