EINELTI Á VINNUSTAÐ

Sögusagnir, baktal og niðurlæging

Sögusögnum um andlegt og líkamlegt ástand þolanda er komið af stað og fullyrt að hann eigi við geðræn vandamál að stríða sé t.d. þunglyndur, geðveikur eða áfengissjúklingur.

Það þykir sjálfsagt að baktala þolanda. Það er t.d. gert grín að þjóðerni og skoðunum hans og þær sagðar barnalegar og hlægilegar. Stöðugt er gert grín að útliti þolanda, málfari, hreyfingum og hermt eftir honum.

Þolandi er þvingaður til að taka að sér verkefni sem gera lítið úr honum og um leið skopast að framlagi hans í vinnunni. Ákvarðanir sem hann tekur eru dregnar í efa. Gengið er út frá því að þolandi taki ákvarðanir út frá persónulegum eða jafnvel afbrigðilegum hagsmunum.

Gefið er í skyn að ekki sé hægt að taka mark á skoðunum hans þar sem hann hugsi einungis um eigin hagsmuni og þarfir.