06.13.2018

Félagsmálaskólinn mun bjóða upp á fjölbreytt námskeið haustið 2018. Hér að neðan má sjá þau námskeið sem verða í boði. Námskeið á borð við Samningatækni, Eru skápar á þínum vinnustað?, Að lenda í erfiðum einstaklingum og Mótun og miðlun upplýsinga eru meðal annarra spennandi námskeiða sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Nánari lýsingar og tímasetningar má sjá hér neðar.

 

Samningatækni

Starfsmenn eru hartnær daglega í aðstæðum þar sem grundvallarþekking og þjálfun í samningatækni kemur að góðum notum. Ákvarðanir á vinnustað eru í ríkari mæli teknar sameiginlega og forystumenn verkalýðsfélaga, talsmenn starfsmanna og starfsmenn sjálfir eru oft í aðstæðum þar sem þeir þurfa að semja fyrir skjólstæðinga sína eða sjálfa sig – oft undir erfiðum kringumstæðum þar sem átök virðast óumflýjanleg. Á námskeiðinu verður farið yfir ferli samningaviðræðna frá undirbúningi til loka samningaferilsins, lausn deilumála, mikilvægi heiðarlegra vinnubragða og hvernig finna má leiðir til þess að ná árangri fljótt og komast hjá átökum sem skaða báða aðila.

Á námskeiðinu verður fjallað er um helstu þætti samninga þar sem þátttakendur taka þátt í verklegum æfingum í gerð samninga. Meðal annars er fjallað um samningsstöðu, forgangsröðun, tilboðsgerð og svigrúm í samningum.

Markmiðið er að þjálfa einstaklinga í undirbúningi fyrir samningaviðræður, gerð samninga, þjálfa þátttakendur í að koma sínum skoðunum á framfæri, hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa og taka ákvarðanir í hópi.

Leiðbeinandi; Aðalsteinn Leifsson, framkvæmdastjóri hjá EFTA og lektor í Háskólanum í Reykjavík.

Staður: Grettisgata 89

Dags. og tími: 10. september - 09:00 – 17:00

 

Eru skápar á þínum vinnustað?

Nýlega tóku gildi lög um jafna meðferð á vinnumarkaði sem fjalla um bann við mismunun. Markmið námskeiðsins er að fræða um staðalmyndir og fordóma varðandi kynþátt, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skerta starfsgetu, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu. Á námskeiðinu verður farið yfir helstu breytingar sem lögin fela í sér og sérstaklega verður fjallað um hinsegin hugtök. Hvað getum við lagt af mörkum til að opna samfélagið og vinnustaðinn fyrir nefnda hópa? Lögð verður áhersla á líflegar og fræðandi umræður þar sem nægur tími verður gefinn fyrir spurningar og umræður.

Leiðbeinendur: Sólveig Rós fræðslustýra Samtakanna '78 og Sonja Þorbergsdóttir lögfræðingur BSRB

Staður: Guðrúnartún 1

Dags. og tími: 26. september - 09:00 – 12:00

 

Að lenda í erfiðum einstaklingum – handleiðsla trúnaðarmanna

Það er algengt að leitað sé til trúnaðarmanna um hin ýmsu mál sem upp koma á vinnustöðum. Sum hver eru léttvæg og fylgja amstri hversdagsleikans en önnur mál eru þung og viðkvæm. Lögð er áhersla á ólík samskiptamunstur og mismunandi framkomu fólks, svo sem ákveðni, óákveðni og ágengni. Fjallað er um grunnatriði samtalstækni, einkenni mismunandi tegunda samtala, mismunandi tjáskiptaleiðir og mikilvægi þess að gæta hlut­leysis í samtölum. Áhersla er lögð á aðstæður og efni sem líkleg eru til að valda ágreiningi, greiningu á eðli ágreiningsefna og hátterni þeirra sem greinir á. Einnig leiðir til að fyrirbyggja ágreining, draga úr ágreiningi, taka á ágreiningi á upp­byggilegan hátt og mikilvægi þess að fylgja lausn ágreiningsmáls eftir. Fjallað er um erfiðleika í samstarfi við vinnufélaga út frá tveimur sjónarhornum, þ.e. ef einstaklingurinn er meðvirkur sjálfur eða þau samskipti sem eru við meðvirkan vinnufélaga. Einnig verður fjallað um erfiða einstaklinga og hversu auðvelt er að verða meðvirkur séu áhættuþættir sem ýta undir það til staðar.

Leiðbeinandi: Jóna Margrét Ólafsdóttir, félagsráðgjafi

Staður: Guðrúnartún 1

Dags. og tími: 30. október - 10:00 – 17:00

 

Námskeið í Forystufræðslunni – haust 2018

Mótun og miðlun upplýsinga - færni á samskiptamiðlum

Samfélags- og samskiptamiðlar eins og Facebook, Twitter, Linkedin, og Instagram, bjóða fjölmarga möguleika en í þeim geta einnig falist hættur séu þeir ekki rétt nýttir. Á þessu námskeiði verður  lögð áhersla á hvernig má nýta þá í starfi og á hvaða hátt, hverjar hætturnar eru og hver munurinn er á milli ólíkra miðla.  Á námskeiðinu er jafnframt fjallað um hvað er gott íslenskt mál og hvað ber að varast í málnotkun. Þá verður skoðað hvernig búa megi til árangursrík verkfæri til markaðssetningar og hvernig halda megi áhuganum hjá félagsmönnum. Þátttakendur fá gagnlegar leiðbeiningar um notkun þessara ólíku miðla sem nýtast við markvissa markaðssetningu.

Markmið:

Að þátttakendur:

  • auki færni sína við að móta og miðla upplýsingum í gegnum ólíka miðla.
  • geti haft áhrif á aðra til að virkja fleiri einstaklinga til liðs við stéttarfélögin.
  • læri að aðlaga texta að mismunandi kynningaraðferðum.

 

Leiðbeinendur: Maríanna Friðjónsdóttir, ráðgjafi og samfélagsmiðlari.

Staðsetning:  Guðrúnartún 1

Dagur og tími: 17. september – 10:00 – 17:00

 

Hvernig búum við okkur undir tæknina?

Miklar framfarir í upplýsingatækni, gervigreind og á fleiri sviðum munu hafa mikil áhrif á umhverfi launafólks og atvinnulífs á næstu árum. Spár gera ráð fyrir að hluti þeirra starfa sem eru til í dag muni „hverfa“ og önnur taki miklum breytingum. Því fyrr sem gripið verður til aðgerða sem taka mið af þessari framtíð því betur standa samfélög að vígi til að takast á við þessa þróun. Ef ekki verður brugðist við er hætta á að „vinnuaflið“ úreldist og afleiðing af því yrði takmarkað framboð af áhugaverðum, vel launuðum störfum. Jafnframt er vert að velta fyrir sér hlutverki og gildi kjarasamninga og stéttarfélaga á breyttum vinnumarkaði, hvaða vandamál geta komið upp og ekki síst hvaða tækifæri skapast fyrir launafólk og stéttarfélög til að stuðla að betra samfélagi.

Á námskeiðinu er farið yfir þau helstu vinnuréttarlegu og vinnumarkaðstengdu álitamál sem hafa komið upp og munu hugsanlega geta komið upp. Hvernig tryggja skuli áframhaldandi hag launafólks andspænis auknu auðræði sem breytingunum getur fylgt og síðast en ekki síst verður leitast eftir að fara yfir þau tækifæri sem í breytingunum geta falist.

Markmið

Að þátttakendur:

  • Þekki hvert er hlutverk og gildi kjarasamninga og stéttarfélaga á breyttum vinnumakarði.
  • átti sig á hvaða álitamál geta komið upp.
  • átti sig á þeim tækifærum sem felast í breytingunum

 

Leiðbeinandi: Halldór Oddson lögfræðingur og Róbert Farestveit hagfræðingur.

Staðsetning:  Guðrúnartún 1

Dagur og tími: 2. október – 10:00 – 17:00

 

Að fá athygli - skapandi skrif

Námskeiðið er ætlað þeim sem vilja koma þekkingu sinni og viðhorfum sínum á framfæri í rituðu máli og verða dómbærari á skrif annarra.   Uppbygging greina í dagblöðum, tímaritum, ritgerðum og á vefmiðlum skoðuð. Þátttakendum hjálpað að skilgreina viðfangsefni sín; finna á þeim flöt, ákveða miðil og afmarka lesendahóp.

Rætt um einkenni góðra greina; málfar og stíl, efnistök, uppbyggingu og lengd. Ýmsar ritunaraðferðir kynntar s.s. efnisval, efnistök, nálgun og val á markhópi. Rætt um mismunandi áherslur ólíkra miðla og um ákjósanleg hlutföll staðreynda, skoðana, reynslusagna og tilfinninga í almennum skrifum. Skoðað verður hvernig málefnum er komið til skila á árangursríkan hátt.

Markmið

Að þátttakendur:

  • átti sig á hvað þarf til að koma máli á dagskrá.
  • geri sér grein fyrir hvaða tegund fjölmiðlunar hentar fyrir ólík viðfangsefni.
  • læri aðferðir til að búa til eigið tengslanet.

Leiðbeinandi: Björg Árnadóttir, rithöfundur og fullorðinsfræðari.

Staðsetning:  Guðrúnartún 1

Dagur og tími: 6. nóvember – 10:00 – 17:00

 

 

Til baka