12.19.2017

Ný námsskrá Félagsmálaskólans

Félagsmálaskóli alþýðu hefur tekið í notkun nýja námsskrá Nám trúnaðarmanna.

Hin nýja námsskrá byggir á eldri námsskrám, Trúnaðarmannanámskeið I og Trúnaðarmannanámskeið II sem gefnar voru út í nóvember 2007 og byrjað var að kenna eftir í mars 2008. Mikil rýnivinna og endurskoðun fór fram og tók langan tíma. Skoðaðar voru umsagnir trúnaðarmanna og reynsla leiðbeinenda af kennslu eldri námsskráa. Þá var mikið um endurtekningar í nokkrum námsþáttum og mörgum þótti námið of langt.  Því voru nokkrir námsþættir sameinaðir, sumir styttir og aðrir lengdir, en umfram allt var námið gert hnitmiðaðra. Við þessa endurskoðun kom einnig í ljós að einungis tæplega 25% þeirra trúnaðarmanna sem luku Trúnaðarmannanámskeiði I luku Trúnaðarmannanámskeiði II.

Félög getað valið þá námsþætti sem þeim hentar hverju sinni fyrir sína trúnaðarmenn og forgangsraðað námsþáttum eftir mikilvægi, t.d. með tilliti til nýrra trúnaðarmanna.

Þess má geta að allir námsþættir úr eldri námsskrám er hægt að fá pantaða sem stök námskeið sem og námsþætti úr hinni nýju námsskrá. Sem dæmi um það er búið að fella námsþáttinn um „Einelti á vinnustað“ inn í námsþáttinn um „Samskipti á vinnustað“, eftir sem áður verður hægt að panta eineltisþáttinn sem sér námskeið.

Skipulag og skráning

Nú hafa verið teknar í notkun „mínar síður“ á heimasíðu skólans ætlaðar nemendum sem sækja námskeið hjá skólanum. Þurfa þeir að skrá sig með íslykli, rafrænum skilríkjum eða lykilorði. Því mun sá háttur sem hefur verið á skráningum, að félögin sendi inn lista til skólans með nöfnum trúnaðarmanna sem sitja viðkomandi námskeið, falla niður.

Félagsmálaskólinn hefur það að markmiði að minnka pappírsnotkun og því verður námsefnið sent fyrirfram til nemenda í gegnum „mínar síður á heimasíðu Félagsmálaskólans.  Það krefst þess að nemendur hafi með sér fartölvu, Ipad eða notist við símann við að lesa áður send námsgögn.

Nemendur munu sækja námsefni fyrir komandi námskeið á „mínar síður“ og fylla út námsmat.  Einnig er fyrirhugað að nemendur geti sjálfir sótt viðurkenningarskjöl við námskeiðslok, nánari útfærsla á því er í vinnslu. Því er brýnt að félögin minni trúnaðarmenn sína á nauðsyn þess að hafa með fartölvur eða önnur slík tæki með sér á námskeiðin eftirleiðis.

  

Til baka