Um námskeiðið

Tveggja daga yfirlitsnámskeið um íslenska lífeyriskerfið og starfsemi lífeyrissjóða. Farið er yfir helstu þætti er snerta hlutverk og starfsumhverfi þeirra, fjallað um réttindakerfið, lagaumhverfi sjóðanna, eignir og fjárfestingaheimildir auk þess sem rætt er um hlutverk stjórnarmanna og hæfi þeirra.

Upplýsingar

  • Dagsetning: 05. mars - 06. mars 2020
  • Tími: 09:00 - 15:30
  • Staður: Guðrúnartún 1, 1. hæð (Bárubúð)
  • Verð: 80.000 kr.

Námskeiðið er góður inngangur fyrir þá sem vilja kynna sér málaflokkinn og gagnast vel þeim sem áhuga hafa á stjórnarstörfum í lífeyrissjóðunum, tilvonandi stjórnarmönnum, starfsmönnum lífeyrissjóða, fulltrúaráðum lífeyrissjóða, starfs- og stjórnarmönnum stéttarfélaga, fulltrúum í lífeyrisnefndum félaga og öðrum þeim sem hafa áhuga á málefninu.

 

Námskeiðslýsing:

Fyrri dagur kl. 9:00 — 15:30

  • Lífeyriskerfið

Uppbygging, hugmyndafræði og hlutverk lífeyriskerfisins. Sögulegt ágrip, stjórnkerfi sjóðanna og tengsl við aðila vinnumarkaðarins. Lífeyrissjóðir í  þjóðhagslegu og alþjóðlegu samhengi.

  • Lagaumhverfi og eftirlit

Farið yfir löggjöf og regluverk sem gildir um starfsumhverfi lífeyrissjóða, þróun þess og tilgang. Fjallað um opinbert eftirlit með sjóðunum, markmið þess og framkvæmd. Rætt um innra eftirlit og tilgang þess.

  • Hlutverk, verkefni og ábyrgð stjórnarmanna í lífeyrissjóðum.

Fjallað um hlutverk og skyldur stjórnarmanna og helstu atriði er lúta að góðum stjórnarháttum. Farið yfir kröfur um almennt og faglegt hæfi stjórnarmanna lífeyrissjóða og fyrirkomulag við hæfismat.

 

Seinni dagur kl. 9:00 – 15:30 

  • Lífeyrisréttindin

Fjallað verður um þrjár meginstoðir lífeyriskerfisins. Ólík réttindakerfi nokkurra lífeyrissjóða skoðuð og munur á sameignaréttindum og séreign. Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða verður skoðað. Þá verður rætt um hvernig við getum gert lífeyrisáætlun og hvaða þættir hafa áhrif á hana.

  • Eignir og fjárfestingar

Fjallað verður um megin einkenni lífeyrissjóða sem fjárfesta og þær reglur sem gilda um fjárfestingarstarfsemi þeirra. Þróun eignasafna verður skoðuð og mat á tryggingafræðilegri stöðu þeirra. Farið verður yfir stjórnskipulag lífeyrissjóða og vikið að þýðingu innri- og ytri endurskoðunar, innra eftirlits og áhættustýringu. Loks verður vikið að sjónarmiðum varðandi ábyrgar fjárfestingar.